Skip to main content
Blog

HVERNIG VIÐHELDUR ÞÚ RAKA Í HÚÐINNI?

By 26.08.2020mars 18th, 2022No Comments

HVERNIG VIÐHELDUR ÞÚ RAKA Í HÚÐINNI?

„Við erum vön að setja vetrardekk undir bílinn þegar frysta tekur en fær húðin okkar næga athygli þegar kuldaboli byrjar að bíta í kinnar! Hvað gerist þegar kólnar í veðri – af hverju líta t.d. handarbökin út fyrir að vera tíu árum eldri? Og til hvers ættum við að verja húðina fyrir kulda?

Þegar kólnar í veðri lækkar rakastig gjarnan í andrúmsloftinu sem þýðir að loftið verður þurrt og dregur til sín raka úr húðinni. Rakinn í ysta húðlaginu er nátengdur rakanum í loftinu og þegar loftið er þurrt þá upplifum við húðþurrk. Þegar við skrúfum frá ofnunum þá þornar loftið innandyra enn meira og getur hæglega farið niður fyrir 40% en allt fyrir neðan það gildi getur valið óþægingum í húð og slímhúð. Kaldur vindurinn gerir vont verra og hætta er á að exem og psóríasis blossi upp,“

Aldurinn tekur sinn toll

Með aldrinum verða nokkrar breytingar á húðinni sem eykur líkur á þurrki.

 • Fitukirtlum í húðinni fækkar en náttúrulega olían frá þeim hafði áður séð til þess að halda raka í húðinni.
 • Náttúrulegt rakaefni (hýalúrón-sýra) í miðlagi húðarinnar minnkar en það er afar sækið í vatn og getur hengt á sig þúsundfalda þyngd sína af vatni.
 • Húð sem er með uppsafnaðar sólarskemmdir er oft þynnri og með minni getu til að halda raka.

Því finnum við sem eldri erum oft meira fyrir húðþurrki á veturna sem getur haft í för með sér kláða, varaþurrk og sprungna húð. Í þessari myrku mynd sem ég hef málað má samt finna ljós. Við getum nefnilega beitt ýmsum brögðum til að sigrast á kuldabola.

Leiðir til að halda raka í húðinni

 1. Klæða sig í hlý föt. Í kulda dragast æðarnar í húðinni saman til að varðveita líkamshita og með því að klæða sig vel helst eðlilegt blóðflæði til húðarinnar. Svæðin sem verða mest fyrir barðinu eru þau sem standa mest út, eins og fingur, tær, nef og eyru. Í alvarlegum tilfellum getur kuldi leitt til kals og dreps í húð. Það er sjaldgæft að verða fyrir kali en þetta minnir okkur á að vernda húðina fyrir kulda. Slæður og treflar koma að notum til að verja andlitið og grifflur ættu í raun að komast aftur í tísku! Heitir drykkir (mælt með upp að 60°C) geta sömuleiðis hjálpað okkur að ná upp líkamshita.
 2. Rakagefandi krem eru lífsbjörg fyrir húðþurrk. Þau hjálpa til við að halda raka í ysta húðlaginu og loka rakann inni. Athugaðu að kremið sem hentaði þér í sumar er mögulega ekki nógu rakagefandi fyrir veturinn. Rakakrem innihalda oftast þrjár tegundir af efnum: 1) efni sem draga í sig raka (e. humectants) t.d., glycerin, propylene glycol, butylene glycol, sorbitol o.fl.; 2) efni sem loka raka inni, t.d. petrolatum, lanolin og mineral oil, og; 3) mýkjandi smyrsli sem styrkja varnir ysta húðlagsins, t.d. linoleic eða linolenic acid og ceramides. Sum krem innihalda hátt hlutfall af vatni sem henta síður í lengri útivist í köldu veðri og þá er oft betra að nota feit krem sem innihalda paraffin eða lanolin en þau mynda filmu á húðinni og halda vel raka í húðinni.
 3. Sólarvörn allt árið í kring. Ef þú vilt að húðin eldist vel skiptir máli að nota sólarvörn á veturna. UVA geilsar dynja á okkur allt árið – þó svo að sólin sé lægra á lofti og skýjað (allt að 80% af geislunum smjúga í gengum ský). UVA eru kröftugir geislar og berast í gegnum gler inn í óvarða húð. Ef maður er á sjó eða í snjó þá er sólarvörnin enn mikilvægari því geislarnir endurvarpast og verða sterkari. Athugaðu að sólarvörnin sé breiðvirk (þ.e. bæði fyrir UVA og UVB) og amk SPF 30 á tveggja tíma fresti. Þeim sem eru með þurra húð finnst oft þægilegt að bera zink oxide (mineral sólarvörn) á húðina en zinkið er græðandi.
 4. Nærðu húðina innan frá. Ef þú ert með þurra húð getur hjálpað að taka inn ómega- 3 fitusýrur úr sjávarríkinu (líkaminn á erfiðara með að nýta ómega-3 úr jurtaríkinu) en athugaðu að það getur tekið tvo mánuði fyrir árangur að koma fram. Þeir sem eru á blóþynnandi lyfjum eða með aukna blæðingarhneigð ættu að ráðfæra sig við lækni áður en ómega-3 er bætt á matarlistann. Margir finna fyrir auknum raka í húð eftir að taka inn kollagen og það er einnig gott að muna eftir að drekka vatn, sérstaklega ef þú drekkur kaffi eða áfengi sem eru vatnslosandi. Það er ekki vísindalega staðfest að átta vatnsglös á dag sé nauðsynlegt en gott er að miða við að þvagið sé ljósgult. Þegar við erum í vökvaskorti þá losar hýalúrónsýra sig við vatn í miðlagi húðarinnar. Og svo er gott að muna að ávextir og grænmeti innihalda mikið af vökva ásamt góðum næringarefnum fyrir húðina.
 5. Stutt og volg sturta fer betur með húðina þó svo að það sé freistandi að fara í langa heita sturtu þegar manni er kalt. Líkt og þegar þú vaskar upp þá skolar heitt vatn betur fitu af diskunum. Sama gildir um húðina. Heita vatnið getur fjarlægt náttúrulegar olíur á húðinni og valdið enn meiri uppgufun raka frá húðinni. Gott er að miða við 5- 10 mínútur í senn og setja rakakrem um leið og þú stígur úr baði eða sturtu til að innsigla rakann í húðinni. Sama á við eftir handþvott.
 6. Vera spar á sápu. Eins og sápa hreinsar vel fitu af diskum í uppvaskinu þá hreinsar hún einnig vel okkar náttúrulegu fitu á húðinni. Þú átt ekki að þurfa að nota sápu fyrir líkamann (hendur eru undantekning). Sumir geta ekki verið án sápu og þá skiptir máli að velja sápu í föstu formi án ilmefna, sem er ekki eins ertandi og fljótandi sápa sem gjarnan er með fleiri aukefni sem erta og þurrka húðina meira. Svo er hægt að nota eins lítið og þú kemst upp með, e.t.v. bara í handarkrika. Ef hendur eru þurrar geturðu prófað að skipta í fasta handsápu og sjá hvort þurrkurinn minnki ekki.
 7. Mild þvottaefni. Þvottaefni sem eru sterk og innihalda ilmefni geta ert húðina. Ef húðin er þurr og kláði í henni þá getur skipt sköpum að nota milt þvottaefni og lítið af því. Og sleppa mýkingarefnunum, þau eru oft ertandi.
 8. Nota rakatæki innandyra og hafa það stillt á um 60% hjálpar sumum.
 9. Vefnaður getur ert. Sumir eru viðkvæmir fyrir ull og öðrum efnum þannig að það er gott að vera á varðbergi hvort einhver klæðnaður espi upp þurrkinn.
 10. Nota á varir feit smyrsli sem innihalda paraffín (t.d. Eurcerine), petroleum jelly (t.d Vaselín), lanólín (t.d. Lansinoh) eða annað milt eins og bíflugnavax eða shea butter. Í mörgum varasölvum eru bragðefni sem geta ert varirnar og aukið þurrk. Freistandi er að sleikja þurrar varir en athugaðu að það gerir þær enn þurrari.
 11. Ef engin ráð duga skaltu heyra í lækni eða húðsjúkdómalækni. Sjúkdómar eins og vanvirkur skjaldkirtill, sykursýki eða ýmsir húðsjúkdómar geta valdið húðþurrki.

Ég óska ykkur góðra stunda framundan með kósýheitum, kertaljósum og roða í kinnum.